FAB ACADEMY Á ÍSLANDI
FAB ACADEMY
Búðu þig undir að vera virkur þátttakandi í 4. iðnbyltingunni og skráðu þig í Fab Academy og stundaðu einstakt nám hér á Íslandi á vorönn 2020.
Fab Academy er alþjóðlegt nám í stafrænni framleiðslutækni þar sem áhersla á er lögð á verklega þjálfun. Nemendur í Fab Acacemy öðlast hæfni á mikilvægum sviðum sem tengjast tölvum, rafeindatækni, forritun og stafrænni framleiðslutækni en þekking á þessum sviðum nýtur eftirspurnar í atvinnulífinu hér á landi og víða um heiminn.
Námið býður upp á einstakt tækifæri til þess að læra um stafræna framleiðslutækni með góðu aðgengi að fullkomnum tækjabúnaði og aðstöðu.
Námið er í 6 mánuði og er kennt af Neil Gershenfeld prófessor hjá MIT háskólanum í Boston í Bandaríkjunum frá janúar til júní.
Frábær reynsla fyrir nemendur
Í náminu er farið yfir hvernig hægt er að fá hugmyndir, útfæra hugmyndir, gera frumgerðir og skrásetja ferli og frá frábæra reynslu í notkun á stafrænum framleiðslutækjum.
Í náminu er farið yfir grunnatriði hönnunar í tvívídd og þrívídd ásamt tölvustýrðri framleiðslutækni. Farið er yfir hönnun rafrása, notkun skynjara og úttækja ásamt því hvernig örgjörvar eru forritaðir. Þá er einnig farið yfir mótagerð, vélahönnun, þrívíddarskönnun og þrívíddarprentun og síðast en ekki síst notkun á tölvustýrðum fræsivélum stórum og litlum, þrívíddarprentara, vinylskera, laserskera, og margt fleira.
Náðu þér í þekkingu fyrir 21.öldina
Námið býr nemendur undir störf eða frekara nám í fjölmörgum greinum atvinnulífsins á 21.öldinni.
Nemendur í Fab Academy færa mikilvæga þekkingu inn á vinnustaði með þekkingu á því nýjasta sem er að gerast í tækniheiminum í dag. Nemendur í sem hyggja á frekara nám koma betur undirbúnir til náms hvort sem það er á sviði lista, verkgreina, skapandi greina, verk- og tæknifræði, rafmagns- eða tölvunarfræði eða hvaðeina sem krefst skapandi færni.
Alþjóðlegt nám
Árið 2022 munu um 270 nemendur á um 65 stöðum í heiminum stunda nám í Fab Academy og þar á meðal í Fab Lab smiðjunni í Vestmannaeyjum og Akureyri, ásamt Boston, Amsterdam, Barcelona, Oslo og Shenzhen.
Námið fer þannig fram að prófessor Neil Gershenfeld hjá MIT heldur fyrirlestra alla miðvikudaga þar sem farið er yfir verkefni nemenda og kennt nýtt kennsluefni og verkefni lögð fram fyrir næstu viku. Verkefnavinna fer fram alla daga undir leiðsögn í Fab Lab smiðjunum en á mánudögum fara fram fyrirlestrar gestafyrirlesara sem standa framarlega í sínu fagi og kynna fyrir nemendum verkefni, störf og aðferðir.
Á þriðjudögum fer fram yfirferð verkefnavinnunnar í norrænum Fab Lab smiðjum.
Nánari upplýsingar um Fab Academy má finna á http://fabacademy.org/